Innlent

Takmörkun er brot gegn tjáningarfrelsinu

Ákvörðun stjórnvalda að veita einungis einum aðila aðgang að öllum gögnum um símhleranir á dögum kalda stríðsins, stangast á við tjáningarfrelsisákvæði mannréttindasáttmála Evrópu að sögn Ragnars Aðalsteinssonar lögmanns. Hann gerði þetta að umtali á ráðstefnu Háskólans í Reykjavík um tjáningarfrelsi sem stendur nú yfir.

„Í tjáningarfrelsisákvæðinu er talað um rétt til þess að fá upplýsingar en sá réttur vill oft gleymast,“ sagði Ragnar. Hann benti á að einn sagnfræðingur hefði fengið aðgang að öllum upplýsingum um hleranir í kalda stríðinu sem geymdar væru í Þjóðskjalasafni. „Margir sóttust eftir aðgangi í kjölfarið en menntamálaráðherra ákvað að veita fórnarlömbum hlerananna takmarkaðan aðgang að gögnunum þrátt fyrir þetta ákvæði,“ sagði Ragnar.

Hann benti á að samkvæmt ákvæðinu mættu stjórnvöld takmarka aðgang að upplýsingum er til að mynda vörðuðu öryggi ríkisins eins og í þessu tilviki. Hins vegar væri liðinn tilskilinn tími til að opinbera megi upplýsingarnar, eða þrjátíu ár samkvæmt lögum.

„Það er ekki nóg að gangast undir mannréttindasáttmálann. Við þurfum að vera meðvituð um hvaða merkingu tjáningarfrelsisákvæðið hefur,“ sagði Ragnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×