Innlent

Þekkti ekki verðmætamatið

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. 
Segir borgarhagfræðing hafa séð verðmætamat sem ríkið lét gera þar sem verðmæti Landsvirkjunar var metið á 45 milljarða.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Segir borgarhagfræðing hafa séð verðmætamat sem ríkið lét gera þar sem verðmæti Landsvirkjunar var metið á 45 milljarða.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri segist ekki hafa þekkt verðmætamat frá ParX, viðskiptaráðgjöf IBM, sem mat verðmæti Landsvirkjunar á 91,2 milljarða í árslok 2005, þegar hann seldi hlut Reykjavíkurborgar í fyrirtækinu.

Borgarstjóri seldi hlut borgarinnar í Landsvirkjun miðað við verðmætamat sem var 60,5 milljarðar.

Fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarráði lögðu fram bókun á borgarráðsfundi á fimmtudag sem byggist á því að hluturinn hafi verið seldur á „smánarverði". Þeir rökstuddu þá gagnrýni með því að vísa til 91,2 milljarða verðmætamatsins.

Vilhjálmur segist ,,aldrei hafa séð" niðurstöður ParX um 91,2 milljarða verðmætamatið.

„Þessar tölur hafa aldrei komið fram í umræðunni um sölu hluta borgarinnar í Landsvirkjun. Þær hafa aldrei verið nefndar við mig eða verið kynntar í borgarráði," segir Vilhjálmur en verðmætamatið sem sala Reykjavíkur á hlutnum var byggð á var annað lægra verðmætamat frá ParX.

Vilhjálmur segir að fullyrðingar fulltrúa Samfylkingarinnar um að borgin hafi selt hlutinn á of lágu verði séu fráleitar og órökstuddar, því svo hátt verðmætamat hafi aldrei verið nefnt til sögunnar í samningaferlinu um sölu hlutarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×