Innlent

Ísland á að leiða umræðurnar

Hlýnun jarðar.
Umhverfisráðherra tekur undir grundvallarsjónarmið breska hagfræðingsins Nicholas Stern.
Hlýnun jarðar. Umhverfisráðherra tekur undir grundvallarsjónarmið breska hagfræðingsins Nicholas Stern.

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra er sammála þeim grundvallarsjónarmiðum sem breski hagfræðingurinn Nicholas Stern setur fram í skýrslu sinni um aðgerðir gegn loftlagsbreytingum og tekur undir mörg af sjónarmiðum hans.

Stern telur grundvallaratriði að kolefnissambönd verði verðlögð af stjórnvöldum til að hvetja fyrirtæki til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að stuðningur við rannsóknir verði aukinn. Jónína telur að Ísland eigi að leiða umræðu og framkvæmdir í hópi annarra Norðurlandaþjóða, enda sé um að ræða hnattræna ógn við framgang lífsins á jörðinni.

„Þetta eru allt hugmyndir og aðgerðir sem við, eins og aðrar þjóðir, þurfum að huga að. Það er enginn undanþeginn því,“ svarar Jónína aðspurð hvort Ísland eigi að vera fyrst til að verðleggja kolefnissambönd og láta fyrirtæki greiða fyrir losun á gróðurhúsalofttegundum. „Ísland er leiðandi á margan hátt í umhverfismálum, ekki síst vegna hlutdeildar okkar í endurnýjanlegri orku.“

Jónína kynnti á fundi samstarfsráðherra Norðurlandanna í vikunni hugmyndir að norrænni loftlagsmiðstöð. Þar yrði komið á víðtæku samstarfi vísindamanna um rannsóknir á losun gróðurhúsalofttegunda og afleiðingum þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×