Innlent

Ríflega 3.000 króna verðmunur

Verðmunur við skiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu fyrir fólksbíl getur verið allt að 65,5 prósent.
Verðmunur við skiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu fyrir fólksbíl getur verið allt að 65,5 prósent.

Skipting, umfelgun og jafnvægisstilling fyrir fólksbíl á sextán tommu dekkjum með stál-felgum er dýrust hjá Betra gripi í Lágmúla en þar kostar þjónustan 7.760 krónur. Ódýrust er þjónustan hjá Bílkó í Kópavogi þar sem hún kostar 4.690 og er munurinn því 3.070 krónur eða 65,5 prósent.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði hjá 28 þjónustuaðilum á höfuðborgarsvæðinu nú í vikunni.

Þjónustan fyrir fólksbíl á þrettán til fimmtán tommu dekkjum var dýrust hjá Hjólvest, Hjólbarðahöllinni, Gúmmívinnustofunni og Dekkinu þar sem hún kostaði 5.800 krónur. Ódýrust var þjónustan hins vegar hjá Dekkjalagernum á Smiðjuvegi þar sem hún kostaði 4.600 krónur og er munurinn því 26 prósent.

Þjónusta hjólbarðaverkstæða við fólksbíla hefur hækkað um átta til níu prósent að meðaltali frá síðustu könnun verðlagseftirlitsins fyrir rúmu ári. Meiri hækkun hefur þó orðið á þjónustu við stærri fólksbíla á stálfelgum og nemur hún rúmum ellefu prósentum frá fyrra ári.

Þjónusta fyrir jeppa hefur hækkað minna eða um fjögur til sjö prósent á milli ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×