Innlent

Ari Edwald segir sameiningu geta verið mjög skynsamlega

Ari Edwald Forstjóri 365 segir engar ,,formlegar viðræður“ hafa átt sér stað um sameiningu fyrirtækisins og Skjásins.
Ari Edwald Forstjóri 365 segir engar ,,formlegar viðræður“ hafa átt sér stað um sameiningu fyrirtækisins og Skjásins.

 Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, segir að engar formlegar viðræður hafi farið fram á milli fyrirtækisins og Skjásins um sameiningu fyrirtækjanna.

Ari neitar því hins vegar ekki að aðstandendur fyrirtækjanna hafi ,,kastað þeirri hugmynd á milli sín“ að sameining þeirra gæti verið skynsamleg.

,,Ég held að allir sem þekkja til þessara tveggja fyrirtækja geti verið sammála um að sameining þeirra sé mjög skynsamleg, þó að ýmis ljón séu í veginum. Enda má segja að hugmyndin sem slík hafi oft skotið upp kollinum frá stofnun Skjásins,“ segir Ari.

Að sögn Ara er helstu fyrirstöður sameiningarinnar að eigendur fyrirtækjanna þurfi að máta saman hagsmuni sína áður en formlegar viðræður um hana fara fram, auk þess sem samkeppnisftirlitið kynni að hafa skoðanir á henni. Ari telur jafnframt að þessar fyrirstöður ættu ekki að þurfa að koma í veg fyrir sameiningu fyrirtækjanna ef forsvarsmenn þeirra komast að samkomulagi um hana. Hann bætir því við að sameiningin sé hins vegar aðeins hugmynd um þessar mundir.

Magnús Ragnarsson, sjónvarpsstjóri Skjásins, vildi ekki tjá sig um málið þegar Fréttablaðið hafði samband við hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×