Innlent

RÚV mun fá algjöra yfirburði

Vilhjálmur Egilsson.
Segir Ríkisútvarpið ohf. fá algjöra yfirburði á fjölmiðlamarkaði verði frumvarpið að lögum.
Vilhjálmur Egilsson. Segir Ríkisútvarpið ohf. fá algjöra yfirburði á fjölmiðlamarkaði verði frumvarpið að lögum. MYND/Stefán

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, skrifar á heimasíðu samtakanna í gær að breyting Ríkisútvarpsins í opinbert hlutafélag muni valda því að veruleg röskun verði á íslenskum fjölmiðlamarkaði í heild.

Vilhjálmur segir að þó að sérstaklega sé kveðið á um fjárhagslegan aðskilnað á milli útvarpsþjónustu í almannaþágu og annars reksturs, sé það ekki líklegt til árangurs vegna þess að skilgreiningin sé svo rúm að hún nái yfir langstærstan hluta starfseminnar. „Því er hætt við að mjög þrengi að keppinautum Ríkisútvarpsins og það fái algjöra yfirburði á markaðnum,“ segir Vilhjálmur.

Ef frumvarpið verður að lögum óbreytt, segir Vilhjálmur að framboð af efni verði fábreyttara og einhæfara en nú, enda muni RÚV fá tæpa þrjá milljarða afhenta fyrirhafnarlaust frá skattgreiðendum. Á meðan þurfi önnur fyrirtæki að leggja enn stífari mælikvarða á arðsemi á allt sitt efnisframboð og geta tekið takmarkaða áhættu í sínu starfi. „Þess vegna verður aldrei friður um Ríkisútvarpið ohf. í fyrirhugaðri mynd,“ segir Vilhjálmur og jafnframt að heppilegra sé að RÚV starfi á sambærilegum grunni og önnur fyrirtæki á fjölmiðlamarkaði.-




Fleiri fréttir

Sjá meira


×