Innlent

Ólíklegt að reyni á ríkisábyrgð

Guðmundur Bjarnason framkvæmdastjóri íbúðalánasjóðs Segist mjög sáttur við niðurstöðu úttektar Ríkisendurskoðunar á Íbúðalánasjóð.
Guðmundur Bjarnason framkvæmdastjóri íbúðalánasjóðs Segist mjög sáttur við niðurstöðu úttektar Ríkisendurskoðunar á Íbúðalánasjóð. MYND/E.ól

Ólíklegt er að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs stefni niður fyrir þær kröfur sem fjármálaeftirlitið setur á stofnunina og skilgreindar eru í reglugerð, í fyrirsjáanlegri framtíð og þar af leiðandi ólíklegt að reyna muni á ríkisábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Þetta kemur fram í hluta stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar á sjóðnum sem félagsmálanefnd Alþingis óskaði eftir í júlí árið 2005 í ljósi mjög breyttra aðstæðna á fjármálamarkaði.

Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, er sáttur við þessa niðurstöðu og segir hana sýna að fjárhagur sjóðsins sé í góðu jafnvægi.

Niðurstöðurnar byggja á þeirri forsendu að sjóðurinn geti ávallt endurlánað eða endurfjárfest, með tiltekinni vaxtaviðbót, það fjármagn sem kemur til vegna uppgreiðslna útlána hjá sjóðnum. Tekið er fram að um afgerandi forsendu sé að ræða og erfitt að meta líkur á að hún standist.

Guðmundur segir vissulega alltaf hægt að reka varnagla. "Okkar skuldir eru í ríkistryggðum bréfum og þar af leiðandi með bestu hugsanlegu kjörum. Og ef við þurfum að endurfjárfesta þá bendir allt til þess að við getum fjárfest á betri kjörum, bæði með endurlánum og með því að leita annarra fjárfestingakosta. Og þó svo að sjóðurinn myndi hætta útlánum og þyrfti að borga kröfur sem á honum hvíla þá eru eignir meiri en skuldir og því engin hætta á að ábyrgðir falli á ríkissjóð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×