Innlent

Götuvirðið nemur á milli 355 og 480 milljónum króna

Jóhanna Sigurðardóttir óskaði eftir upplýsingum um hve mikið magn fíkniefna náðist á fyrstu níu mánuðum ársins.
Jóhanna Sigurðardóttir óskaði eftir upplýsingum um hve mikið magn fíkniefna náðist á fyrstu níu mánuðum ársins.

Lögregla og tollgæsla lögðu hald á mun meira af amfetamíni fyrstu níu mánuði ársins heldur en samanlagt magn síðustu þriggja ára. Á tímabilinu janúar til september var hald lagt á rúm 45 kíló af efninu.

Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.

Í svarinu kemur fram að samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Reykjavík er götuverð gramms af amfetamíni 5-7.000 krónur. Samanlagt götuvirði kílóanna 45 er því á milli 225-315 milljónir króna.

Rúm fimm kíló af kókaíni náðust þessa fyrstu níu mánuði ársins en rúmt kíló allt árið í fyrra. Götuvirði þess magns hleypur á 70-90 milljónum króna en grammið kostar 13-17.000 krónur. Tæp 30 kíló af hassi náðust á tímabilinu og er virði þess, selt á götunni, 57-70 milljónir. Þá var hald lagt á rúm tvö kíló af maríjúana sem er virði rúmra fjögurra milljóna króna.

Jóhanna spurði einnig hve háum fjárhæðum væri varið til toll- og löggæslu og kemur fram í svarinu að 5,6 milljarðar króna hafi runnið til málaflokksins fyrstu níu mánuði ársins. Einnig segir að 177 milljónir hafi runnið til forvarna og eftirlits hjá lögreglunni í Reykjavík á sama tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×