Innlent

Ræddu komu Pútín til Íslands

valgerður og sergey Ráðherrarnir voru sammála um að auka samskipti þjóðanna á sviði jarðhita og mikilvægi þess að undirrita samkomulag um það.
valgerður og sergey Ráðherrarnir voru sammála um að auka samskipti þjóðanna á sviði jarðhita og mikilvægi þess að undirrita samkomulag um það.

Hugsanleg koma Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, til Íslands og samningur þjóðanna um fiskveiðar í Smugunni var meðal þess sem Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra og Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, ræddu á fundi sínum í tengslum við utanríkisráðherrafund Norðurskautsráðsins í Rússlandi í seinustu viku.

Pútín hefur fengið boð um að koma í opinbera heimsókn til Íslands og skýrist fyrir árslok hvort og hvenær af heimsókninni verður að sögn Valgerðar. „Ég tel, miðað við það sem kom fram hjá Lavrov, að miklar líkur séu á því að af þessu geti orðið á næsta ári vegna þess að árið 2008 verða forsetakosningar í Rússlandi.“

Á fundi sínum ræddu ráðherrarnir aðallega um viðskipti og viðskiptatengd málefni og lagði Valgerður áherslu á að Rússar uppfylltu samning á milli þjóðanna um fiskveiðar í Smugunni. Íslenskum skipum hefur gengið erfiðlega að veiða þau 2.700 tonn sem þau eiga rétt á samkvæmt samningnum vegna tafa við útgáfu veiðiheimilda af hálfu rússneskra yfirvalda.

Valgerður gat ekki sagt til um hver viðbrögð rússneska ráðherrans voru vegna þess máls annað en að því hefði verið vel tekið. „Þetta fer nú í vinnslu innan rússnesku stjórnsýslunnar og ég vonast til áður en langt um líður að við fáum fregnir af því hvernig meðferð þetta fær.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×