Innlent

Reykjavík og Akureyri selja hlut sinn í Landsvirkjun

Landsvirkjun Tilkynnt verður í dag um sölu á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrar á helmingshlut í Landsvirkjun til íslenska ríkisins. Þetta staðfestu Árni Mathiesen fjármálaráðherra og Jón Sigurðsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra við Fréttablaðið í gær.

Heildarverðmæti Landsvirkjunar er metið á tæplega 61 milljarð og nemur söluverðið um 30 milljörðum króna. Akureyrarbær á fimm prósenta hlut í Landsvirkjun, Reykjavíkurborg 45 prósent og íslenska ríkið helmingshlut. Eftir söluna eignast ríkið Landsvirkjun að fullu en ríkið greiðir fyrir hlut sinn í formi lífeyrisskuldbindinga, Akureyrarbæ að verðmæti rúmlega þriggja milljarða og Reykjavíkurborg rúmlega 27 milljarða.

Borgarráð Reykjavíkur og bæjarráð Akureyrar eiga enn eftir að samþykkja söluna en gengið hefur verið frá samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaganna beggja með þeim fyrirvara að salan verði samþykkt.

Breyta þarf fyrstu grein laga um Landsvirkjun til þess að breytingar á eignarhaldi standist lögin. Í fyrstu greininni segir að Landsvirkjun sé ¿sameignarfyrirtæki ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar¿ en lögin breytast um leið og íslenska ríkið verður eitt eigandi að öllum hlutum í fyrirtækinu.

Sala Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar á hlutnum í Landsvirkjun hefur átt sér langan aðdraganda en fulltrúar ríkisins og sveitarfélaganna hafa fundað reglulega á þessu ári um það hvernig sölunni skuli háttað. Eftir viðræður milli ríkisins og forsvarsmanna Reykjavíkurborgar og Akureyrar náðist samkomulag um heildarverðmæti Landsvirkjunar og var þá ákveðið að ganga frá sölunni til ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×