Innlent

Brýtur í bága við stjórnarskrá

Halla Tómasdóttir
"Við ættum ekki einu sinni að þurfa að ræða þetta."
Halla Tómasdóttir "Við ættum ekki einu sinni að þurfa að ræða þetta."

Atli Gíslason hrl. telur að KSÍ brjóti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og jafnréttislög þegar körlum er greitt meira fyrir landsleiki en konum. Atli segir að samkvæmt jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar eigi ekki að mismuna fólki eftir kyni. Sérstakt ákvæði sé um jafnrétti kynjanna og sérstaklega tekið fram að kynin skuli njóta jafns réttar.

"Ég tel að þessi hugsun KSÍ fari í bága við þessi ákvæði og enn fremur við jafnréttislög," segir Atli og segir að bæði stjórnarskráin og lögin gildi á öllum sviðum mannlífsins og séu ekki bara vinnutengd.

"Í lögum er sérstaklega mælt fyrir um að það eigi að greiða sömu laun fyrir sambærileg eða jafn verðmæt störf. Svo er spurning hvort menn telja knattspyrnuiðkun kvenna jafn verðmæta og knattspyrnuiðkun karla," segir hann.

Halla Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir að launamunurinn sé fullkomlega óeðlilegur og óútskýranlegur. "Ég trúi ekki öðru en að þetta verði leiðrétt hið snarasta ef þetta er staðreyndin," segir hún.

"Í mínum huga getur þetta ekki verið rétt. Það er prinsipmál að konur og karlar eigi rétt á sömu kjörum hvort sem það er í íþróttum eða viðskiptum, við ættum ekki einu sinni að þurfa að ræða þetta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×