Innlent

Fjöldi þjófa á ferðinni

Þjófnaðir Þjófar grípa gjarnan með sér fatnað, raftæki og matvörur.
Þjófnaðir Þjófar grípa gjarnan með sér fatnað, raftæki og matvörur.

Kona á þrítugsaldri var handtekin í söluturni í Reykjavík í fyrrinótt. Hún átti erfitt með að gera grein fyrir ferðum sínum og var margsaga. Konan gat ekki framvísað skilríkjum og gaf lögreglunni upp ranga kennitölu.

Á vettvangi fannst poki en sterkur grunur leikur á að í honum hafi verið þýfi. Þetta er þriðja málið á tiltölulega skömmum tíma þar sem fólk reynir að villa um fyrir lögreglunni með því að gefa upp ranga kennitölu.

Fleiri óprúttnir aðilar komu við sögu lögreglunnar í Reykjavík í fyrradag en nokkuð ber á þjófnuðum þessa dagana. Kona stal kjól úr verslun og í hádeginu var tilkynnt um stuld á skrásetningarnúmeri ökutækis. Um miðjan dag var tæplega fertug kona tekin fyrir þjófnað. Í fórum hennar fundust matarpoki og fatnaður sem hún gat ekki gert grein fyrir.

Síðdegis urðu tveir ungir menn uppvísir að þjófnaði í raftækjaverslun. Þeir tóku til fótanna en annar náðist skömmu síðar. Lögreglan veit hver hinn er og hann verður sömuleiðis látinn svara fyrir gjörðir sínar. Þá var karlmaður á sjötugsaldri gripinn fyrir þjófnað í matvöruverslun undir kvöldmat.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×