Innlent

Jólailminn leggur yfir alla Húsavík

Húsavík Jólin á næsta leiti.
Húsavík Jólin á næsta leiti. MYND/GVA

„Menn komast strax í jólastemningu þegar byrjað er að vinna með hangikjötið,“ segir Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri Norðlenska á Húsavík. Sláturtíðinni þar er lokið og nú vinnur Sigmundur og starfsfólk hans hörðum höndum að því að gera jólarétt Íslendinga, hangikjötið eins ljúffengt og unnt er.

„Hér er sterk hefð fyrir hangikjötsframleiðslu og mikill metnaður lagður í að gera það eins og gott og okkur er lagið,“ segir Sigmundur sem segir af og frá að taka upp á einhverjum nýjungum við þessa vinnslu. „Það á ekki að breyta því sem er gott, og það er hangikjötið okkar svo sannarlega.“

Sigmundur hefur starfað við kjötvinnslu „lengur en leigubílstjórinn í Spaugstofunni“, eins og hann orðar það, eða í þrjátíu ár. Starfið segir hann þó alltaf jafn skemmtilegt og í litlum bæ eins og Húsavík séu allir með á nótunum um hvað sé að gerast í framleiðslunni. „Já, ilminn af kræsingunum sem verið er að útbúa leggur frá okkur þegar við komum úr vinnu. Starfsfólkið í versluninni og bankanum hefur það líka á orði þegar við komum angandi af hangikjöti að jólin séu greinilega á næsta leiti.“-




Fleiri fréttir

Sjá meira


×