Innlent

Dómur Símamanna mildaður

Landssímamenn Kristján Ragnar Kristjánsson og Árni Þór Vigfússon voru dæmdir til að greiða samtals 21,3 milljónir króna.
Landssímamenn Kristján Ragnar Kristjánsson og Árni Þór Vigfússon voru dæmdir til að greiða samtals 21,3 milljónir króna.

Hæstiréttur mildaði í gær dóm héraðsdóms yfir fjórum mönnum sem höfðu verið ákærðir fyrir að standa ekki skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda og lækkaði sektargreiðslur þeirra um 74,25 milljónir króna. Þrír mannanna, þeir Árni Þór Vigfússon, Kristján Ragnar Kristjánsson og Ragnar Orri Benediktsson tengdust allir Landssímamálinu svokallaða þar sem þeir voru meðal annars sakfelldir fyrir fjárdrátt og peningaþvætti. Auk þeirra var fyrrverandi framkvæmdastjóri Japis dæmdur í þessu máli.

Mennirnir fjórir höfðu verið dæmdir í héraðsdómi fyrir vanskil á 56 milljónum vegna virðisauka- og vörsluskatta Lífstíls ehf. og fjögurra annarra fyrirtækja sem undir það heyrðu. Þar voru sektargreiðslur þeirra ákveðnar 96,6 milljónir króna og Kristjáni Ragnari einum og sér gert að greiða tæpar 66 milljónir. Þeir áfrýjuðu allir úrskurðinum sem og ríkissaksóknari sem krafðist þess að Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms.

Í Hæstarétti voru sektargreiðslurnar lækkaðar umtalsvert, líkt og fyrr segir, og er þeim nú gert að greiða rúmlega 22 milljónir króna til ríkissjóðs. Brot Kristjáns Ragnars var talið meiriháttar og því hlaut hann hæstu sektina, eða 18,5 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×