Innlent

Óljóst hversu stór lóðin verður

Hallargarðurinn Fríkirkjuvegur 11 stendur í norðurenda Hallargarðsins.
Hallargarðurinn Fríkirkjuvegur 11 stendur í norðurenda Hallargarðsins. MYND/GVA

Framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar hefur verið falið að gera tillögu að söluauglýsingu vegna húseignarinnar á Fríkirkjuvegi 11. Borgarstjórn hefur nú staðfest að húsið skuli selt.

Húsið á Fríkirkjuvegi 11 stendur á tæplega 3600 fermetra lóð sem rennur saman við liðlega 4100 fermetra lóð á Fríkirkjuvegi 13 og myndar svokallaðan Hallargarð.

Ágúst Jónsson, skrifstofustjóri hjá framkvæmdasviði borgarinnar, segir of snemmt að segja til um hversu stór hluti núverandi lóðar fylgi húsinu við söluna.

"Okkur hafa enn ekki borist skrifleg fyrirmæli frá borgarstjórn og það er ekki búið að forma neinar lýsingar eða skilmála. Það hafa verið uppi margs konar raddir og sjónarmið og það verður reynt að horfa til þeirra. Menn vilja hafa einhvern aðgang að Hallargarðinum," segir Ágúst.

Að því er Ágúst segir hamlar deiliskipulag því ekki að væntanlegur kaupandi hússins geti búið þar kjósi viðkomandi svo. "Ég hygg að þarna geti hvoru tveggja verið atvinnustarfsemi og íbúðarhús," segir hann.

Vænta má þess að nokkrar vikur líði þar til sölulýsing fyrir húsið verður tilbúin.

"Það er töluverð vinna framundan. Það þarf meðal annars að meta ástand hússins og ákveða hvort á að þinglýsa kvöðum um einhvers konar verndun á húsinu. Það var til dæmis gert þegar borgin seldi Heilsuverndarstöðina," segir Ágúst Jónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×