Innlent

Fréttablaðið með yfirburði

Fréttablaðið er mest lesna dagblað landsins og hefur forysta blaðsins á önnur blöð aldrei mælst meiri. Að meðaltali lesa 68,9 prósent landsmanna Fréttablaðið á hverjum degi samkvæmt fjölmiðlakönnun sem Capacent-Gallup gerði í september. 91,2 prósent landsmanna lásu Fréttablaðið einhvern tímann í vikunni sem könnunin stóð yfir. 49,6 prósent landsmanna lesa Morgunblaðið að meðaltali hvern dag en 74,7 prósent sögðust hafa lesið Morgunblaðið einhvern tímann í könnunarvikunni.

Meðallestur Blaðsins mælist nú 45,6 prósent en 70,8 prósent landsmanna lásu Blaðið vikuna sem könnunin var gerð. Þetta þýðir að hvern dag lesa að meðaltali um 44 þúsund fleiri Fréttablaðið en Morgunblaðið, og 54 þúsund fleiri lesa Fréttablaðið en Blaðið.

Fréttablaðið styrkir stöðu sína sem mest lesna blað landsins frá síðustu könnun sem var gerð í vor.

Meðallestur Fréttablaðsins hækkar um 0,6 prósentustig, á sama tíma og lestur Morgunblaðsins minnkar um 4,7 prósentustig og lestur Blaðsins eykst um 12,7 prósentustig.

Sem fyrr er Fréttablaðið meira lesið en hin blöðin alla daga vikunnar, af báðum kynjum, öllum aldurshópum og í öllum landshlutum.

Þegar horft er til meðallesturs á höfuðborgarsvæðinu þá er Fréttablaðið lesið af 72,9 prósentum íbúanna á hverjum degi, Morgunblaðið af 53,7 prósentum íbúa og Blaðið af 54,1 prósenti. 93,9 prósent höfuðborgarbúa lásu Fréttablaðið einhvern tímann í vikunni, 78,8 prósent Morgunblaðið og 79,3 prósent Blaðið. Þetta þýðir að Morgunblaðið er komið í þriðja sæti á lista íbúa höfuðborgarsvæðisins þegar kemur að lestri dagblaða.

Ef lesendum á höfuðborgarsvæðinu er skipt í aldurshópa þá sést að 69,2 prósent fólks á aldrinum 16 til 29 ára lesa Fréttablaðið að meðaltali hvern dag, 37,9 prósent Morgunblaðið og 43 prósent Blaðið. Í aldurshópnum 18 til 49 ára lesa 70,7 prósent Fréttablaðið, 44,5 prósent Morgunblaðið og 48,8 prósent Blaðið. Meðal fimmtíu ára og eldri lesa 82,2 prósent Fréttablaðið, 74,2 prósent Morgunblaðið og 68,6 prósent Blaðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×