Innlent

Þorskeldiskynbætur á Íslandi

Frá því á vormánuðum 2003 hefur verið unnið skipulega að söfnun hrogna úr hrygningarþorski við strendur Íslands til myndunar grunnstofns þorskkynbóta. Upphafið að þessari vinnu má rekja til stofnunar fyrirtækisins IceCod ehf. sem er í eigu Stofnsfisks hf., Hafrannsóknastofnunar, Prokaria hf., Fiskey ehf. og ÞÞL ehf. Fyrsta áfanga verkefnis fyrirtækisins um að þróa framtíðargrunnstofn er lokið.

Frá 2003 hefur verið safnað hrognum úr 698 hrygnum frá ellefu hrygningarsvæðum við Ísland. Mest hefur verið safnað við suðurströndina, en einnig var safnað við norðaustur- og norðvesturströndina. Er áætlað að 350 fjölskylduhópar muni nýtast í grunnstofn þorskkynbóta. Meta þarf arfgengi mikilvægra eiginleika í grunnstofni og með því hvaða kynbótakerfi henti best þorskakynbótum. Þetta útheimtir umfangsmikið tilraunaeldi.

Þorskseiðin sem klakin voru 2003 og 2004 eru komin í áframeldi í kvíum hjá samstarfsaðilum IceCod, HB-Granda og Hraðfrystihúsinu Gunnvör. Yngsti árgangurinn er enn í strandeldi en hinir eru í sjókvíum á Berufirði og í Ísafjarðardjúpi. Elsti árgangurinn (2003) er nú um 1,6-2 kg.

Ljóst er af tilraunaeldi þorsks að það tekur um það bil 18 mánuði að ala þorsk úr 0,1 kg í 2 kg miðað við sjávarhita á Berufirði og í Ísafjarðardjúpi.

Það er mat IceCod að söfnun í grunnstofn hafi tekist vel og fyrir liggur fyrsta mat á arfgengi vaxtar í íslenskum eldisþorski og raunhæft talið að kynbætur eigi eftir að bæta arðsemi þorskeldis. Þar er horft til reynslu frá öðrum tegundum, svo sem laxeldi, þar sem kynbætur hafa skilað verulegum árangri til aukinnar framleiðslu og lækkunar framleiðslukostnaðar. Næsta verkefni IceCod er að hanna kynbótakerfi sem hentar fyrir þorskeldi í framtíðinni. Það er verkefni komandi ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×