Innlent

Þetta er það sem koma skal

Guðrún ögmundsdóttir vill að einkaaðilar fái að selja bjór og léttvín.
Guðrún ögmundsdóttir vill að einkaaðilar fái að selja bjór og léttvín.

Frumvarp um afnám einkasölu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á bjór og léttu víni var lagt fram á Alþingi í gær. Er þetta fjórða þingið í röð þar sem frumvarpið er lagt fram.

Í því er kveðið á um að sveitarstjórnum verði falið að veita fólki eða fyrirtækjum leyfi til sölu bjórs og léttvíns.

Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki, er sem fyrr fyrsti flutningsmaður en Guðrún Ögmundsdóttir, Samfylkingunni, er í hópi meðflutningsmanna. Guðrún kveðst sannfærð um ágæti þess að færa léttvínssöluna til einkaaðila. „Þetta er það sem koma skal og er raunin þegar horft er til vinnulags úti á landi. Þetta er því aðeins spurning um að taka stærra skref.“

Guðrún segist ekki óttast að neysla áfengis aukist, verði sala bjórs og léttvíns flutt til einkaaðila. „Ég held að þetta breyti engu, aðgengið er það mikið hvort eð er. Drykkjuvenjur hafa breyst eftir að bjórinn kom, fólk drekkur minna af sterku víni og þetta er áfram skref í þá átt.“

Frumvarp til laga sem girða fyrir auglýsingar á áfengi í skjóli óáfengra drykkja eða drykkja í líkum umbúðum og áfengir drykkir, var einnig lagt fram í gær.

Ögmundur Jónasson hjá Vinstri grænum er fyrsti flutningsmaður þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×