Innlent

Frumvarpið sagt vera skáldsaga

Árni M. Mathiesen Fjármálaráðherra mælti fyrir fjárlagafrumvarpi ársins 2007 á Alþingi í gær.
Árni M. Mathiesen Fjármálaráðherra mælti fyrir fjárlagafrumvarpi ársins 2007 á Alþingi í gær. MYND/Anton

Framtíðarskáldsaga, var orðið sem Helgi Hjörvar í Samfylkingunni valdi fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem tekið var til fyrstu umræðu á Alþingi í gær. Sagði hann frumvarpið ávísun á áframhaldandi ójöfnuð í samfélaginu.

Stjórnarandstæðingar komu víða við í gagnrýni sinni og lögðu ýmist áherslu á einstaka liði frumvarpsins eða grunnforsendur þess. Katrín Júlíusdóttir þingmaður Samfylkingarinnar gagnrýndi lækkun vaxtabóta og Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, harmaði skattastefnu ríkisstjórnarinnar en Jón Bjarnason þingmaður VG sagði tekjur ríkisins byggjast um of á stóriðjuframkvæmdum. Um leið ræddi hann um aðgengi þingmanna að efnahagsrannsóknum og velti fyrir sér hvort koma ætti á laggirnar sérstakri efnahagsstofu Alþingis.

Birkir Jón Jónsson, formaður fjárlaganefndar, undraðist að stjórnarandstæðingar skyldu segja frumvarpið hægrisinnað enda væri góðum árangri af rekstri ríkissjóðs skilað til heimilanna.

Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki, sagði frumvarpið gríðarlega sterkt og sýna að stjórnvöld væru á réttri leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×