Innlent

Launahækkanir segja til sín

Byggingarvísitalan mælist nú 352,3 stig og hefur hækkað um 0,9 stig, eða 0,26 prósent, frá því í síðasta mánuði. Byggingarvísitalan hefur hækkað meira en vísitala neysluverðs síðustu tólf mánuði. Munurinn nemur 3,8 prósentum.

Byggingarvísitalan hefur rokið upp, sem þýðir að verðbólga hefur verið meiri í byggingarkostnaði en almennt í neysluverðinu. Byggingarvísitalan hefur hækkað um 11,4 prósent síðustu tólf mánuði meðan verðbólgan var aðeins 7,6 prósent við mælingu nú í september.

Guðrún Ragnheiður Jónsdóttir, sérfræðingur á vísitöludeild Hagstofunnar, segir að kostnaður við að byggja vísitöluhúsið, sem er vel skilgreint fjölbýlishús á höfuðborgarsvæðinu, hafi hækkað mikið síðustu tólf mánuði, ekki síst vegna hárra launasamninga innan byggingariðnaðarins. Það sé kannski afleiðing af því þensluástandi sem hafi ríkt.

Vinnuliðirnir hafa hækkað mjög mikið og þá aðallega vegna launasamninga en efniskostnaðurinn hefur hækkað líka. Þegar gengið féll í vor komu fram töluverðar hækkanir líka, segir hún.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×