Innlent

Allt að 28 prósenta hækkun

Ferskur fiskur. Mikil verðhækkun hefur átt sér stað það sem af er ári á flestum tegundum af fiski.
Ferskur fiskur. Mikil verðhækkun hefur átt sér stað það sem af er ári á flestum tegundum af fiski.

Verð á ferskum fiski hefur hækkað um allt að 28 prósent á höfuðborgarsvæðinu frá því í janúar á þessu ári. Þetta kom fram í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ lét gera í vikunni.

Í könnuninni var verð skoðað á 29 tegundum fiskmetis í fiskbúðum og stórmörkuðum. Í niðurstöðunum segir að meðalverð hafi hækkað á öllum tegundunum sem könnunin náði til, að tindabikkju undanskilinni. Flestar tegundirnar hafa hækkað um allt að tíu prósent.

Mikill verðmunur reyndist vera milli verslana. Í niðurstöðunum eru nefnd dæmi um allt að 113 prósenta verðmun á einni tegund milli verslana. Lægsta verðið á flestum tegundum er í Fjarðarkaupum en það hæsta í Gallerí Fiski. Henný Hinz, verkefnastjóri verðlagseftirlitsins, segir að það sem sé kannski mest sláandi í niðurstöðunum sé að hækkanirnar séu gegnumgangandi í öllum tegundum. "Umhverfið á markaðinum hefur náttúrulega breyst. Sex búðir hafa sameinast í eina keðju," segir Henný, en sú breyting hefur nýlega orðið að sex fiskbúðir hafa sameinast undir nafninu Fiskisaga. "Maður myndi ætla að slíkt ætti að skila hagræðingu í rekstri. En svo virðist vera að færri samkeppnisaðilar á markaðinum geti verið verri fyrir neytandann."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×