Innlent

Efast um gæði þjónustunnar

BUGL. Barnageðlæknafélag Íslands efast um að færsla grunnþjónustu til heilsugæslustöðva verði til þess að stytta biðlistana.
BUGL. Barnageðlæknafélag Íslands efast um að færsla grunnþjónustu til heilsugæslustöðva verði til þess að stytta biðlistana.

Félög barna- og unglinga­geðlækna Íslands og Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa hafa gefið frá sér yfirlýsingar í kjölfar ákvörðunar heilbrigðisráðherra um að ráðast í stækkun Barna- og unglingageðdeildar og færslu grunnþjónustunnar til heilsugæslustöðva.

Stjórn Barnageðlæknafélags Íslands er sammála því að styrkja beri grunnþjónustu í nærumhverfi barna og unglinga en það vekur furðu stjórnarinnar að ekki virðist gert ráð fyrir sérfræðiþekkingu barna- og unglingageðlækna á heilsugæslunni og í Miðstöð heilsuverndar barna, þar sem grunnþjónustan verður.

Barnageðlæknar furða sig einnig á því að ekki sé inni í framtíðaráætlunum ráðherra að styrkja stöðu göngudeildar BUGL eða Fjórðungs­sjúkrahússins á Akureyri á nokkurn hátt og að einungis eigi að beina þjónustunni í annan farveg en gæðin virðist aukaatriði. Þá efast barnageðlæknar um að þessar aðgerðir verði til þess að stytta biðlistana.

Stjórn Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa fagnar stækkun BUGL og eflingu grunnþjónustunnar.

Þá skora félagsráðgjafar á heilbrigðisráðherra að nota heildarsýn við uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga og nýta sér þekkingu og reynslu af þverfaglegu samstarfi sem starfrækt er við heilsugæsluna í Grafarvogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×