Innlent

Hundruðum tonna eytt á mánuði

Herstöðin á Miðnesheiði Ekki er allur búnaður Varnarliðsins fluttur af landi brott eða seldur.
Herstöðin á Miðnesheiði Ekki er allur búnaður Varnarliðsins fluttur af landi brott eða seldur.

Varnarliðið vinnur nú að því að eyða miklu magni af ýmsum vörum og búnaði sem það hefur ekki talið nýtast sér annars staðar. Aron Jóhannsson, umhverfis­stjóri sorpeyðingarstöðvarinnar Kölku sem sér um eyðinguna, segir að um töluvert magn sé að ræða. Samkvæmt Aroni er um 350-400 tonnum eytt mánaðarlega og hefur verkefnið staðið yfir í nokkra mánuði. Varningurinn er af öllum toga og nær allt frá matvælum til herbúnaðar.

Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi Varnarliðsins, segir að ekki sé verið að farga varningnum einungis til að eyðileggja hann. „Öll sú vara og búnaður sem nýtist ekki hernum eða Bandaríkjastjórn annars staðar og bíður flutnings úr landi er seldur. Ef hann er hins vegar ekki nýtanlegur þá er honum hent.“ Hann segir þann varning sem sendur er til eyðileggingar meðal annars vera útrunnin matvæli og hluti sem ekki megi fara á markað. „Það geta verið hlutir sem þjóna einhverjum hernaðarlegum tilgangi eða eitthvað sem á hvíla kvaðir um hvernig má fara með. Til dæmis má ekki selja rafmagnstæki eða heimilistæki á innlendum markaði sem ekki eru merkt samkvæmt evrópskum stöðlum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×