Innlent

Ekkert eftirlit með búnaði símafyrirtækja til hlerana

Póst- og fjarskiptastofnun hefur ekki eftirlit með tækjabúnaði sem notaður er til símhlerana, líkt og lög gera ráð fyrir. Þetta staðfesti Hrafnkell Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar í gær.

Samkvæmt lögum þurfa símafélög að hafa tækjabúnað fyrir hendi sem gerir þeim kleift að hlera og staðsetja símtöl, sé þess óskað með dómsúrskurði. Eftirlitsskylda liggur hjá Póst- og fjarskiptastofnun en í lögum segir að stofnunin eigi að vinna að ráðstöfunum til að vernda persónuupplýsingar og friðhelgi einkalífs.

Hrafnkell segir eiginlegt eftirlit með búnaðinum ekki vera fyrir hendi en leggur jafnframt áherslu á að starfsmenn símafélaganna þurfi að fara eftir öllum reglum og bregðast ekki lögbundinni trúnaðarskyldu sinni. Reglurnar eru í lögum um fjarskipti. En það er alveg ljóst að samkvæmt fjarskiptalögum þá hafa stjórnvöld heimild til þess að óska eftir hlerun með dómsúrskurði. Hlerunin er framkvæmd fyrir atbeina viðkomandi fjarskiptafélags annars vegar og síðan lögreglunnar. Það er ekki eftirlit með búnaði símafélaganna á vegum stofnunarinnar, en samkvæmt lögum þá er trúnaðarskylda á starfsmönnum félaganna sem umgangast þennan búnað og ef þeir rjúfa hana með því að nota búnaðinn, þá er það auðvitað skýrt lögbrot.

Þórður Sveinsson, lögfræðingur hjá Persónuvernd og staðgengill Sigrúnar Jóhannesardóttur forstjóra, segir stofnunina geta óskað eftir því að fylgjast með meðferð persónuupplýsinga hjá fyrirtækjum. Persónuvernd getur gert úttekt á því hvernig meðferð persónuupplýsinga er háttað hjá fyrirtækjum. Við höfum ekki skoðað upplýsingar er tengjast símnotkun sérstaklega en við erum byrjuð að skoða það hvernig málum er háttað gagnvart netþjónustunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×