Innlent

Síðasta þyrlan af landi brott

Starfi björgunarþyrlna Varnarliðsins lauk í gær á táknrænan hátt þegar síðasta þyrlan var sett um borð í stóra flutningavél sem flaug með hana til Englands. Með síðustu tveim þyrlunum, sem hér höfðu verið um nokkurt skeið, fóru um tuttugu varnarliðsmenn.

Um sex mánuðir eru liðnir síðan tilkynnt var um lokun herstöðvarinnar á Miðnesheiði. Þyrlusveitin kom hingað til lands frá Englandi árið 1971 og þá sem hliðarsveit frá aðalsveitinni þar í landi. Nú þegar síðasta þyrlan er horfin af landi brott má segja að starfsemi Varnarliðsins sé endan­lega lokið á Íslandi, þar sem viðvera björgunarþyrlnanna tveggja var síðasta eiginlega starfsemin sem haldið var úti.

Í 35 ára langri sögu hennar hefur sveitin bjargað yfir þrjú hundruð mannslífum og eru björgunarafrek sveitarinnar Íslendingum í fersku minni. Flugbjörgunarstarf á Íslandi færist nú að öllu leyti í hendur Landhelgisgæslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×