Fótbolti

Þiggur ekki laun frá Real Madrid

Zinedine Zidane lætur gott af sér leiða og gerir sitt besta til að laga ímynd sína.
Zinedine Zidane lætur gott af sér leiða og gerir sitt besta til að laga ímynd sína. NordicPhotos/GettyImages

Zinedine Zidane, fyrrum fyrirliði franska landsliðsins og leikmaður Real Madrid, neitar að taka við launagreiðslum frá Real Madrid þótt hann eigi fullan rétt á þeim. Zidane ákvað sem kunnugt er að leggja skóna á hilluna í sumar þrátt fyrir að eiga eitt ár eftir af samningi sínum við Real og ákvað spænska félagið að verða við þeirri ósk snillingsins gegn því að hann ynni sem útsendari og sendiherra fyrir félagið á þessu keppnistímabili.

Fyrir það átti Zidane að fá sex milljónir evra á árinu, eða rúmlega hálfan milljarð íslenskra króna. Zidane telur hins vegar ekki rétt af sér að þiggja þau laun.

"Þetta er dæmigert fyrir Zidane og sýnir hversu mikill öðlingur hann er. Hans framlag til Real Madrid var og er ennþá ómetanlegt," sagði talsmaður Real við spænska blaðið AS. Forráðamenn Real Madrid vinna nú hörðum höndum að því að ná samkomulagi við franska knattspyrnusambandið um að spila góðgerðarleik til heiðurs Zidane, á milli Real og franska landsliðsins.- vig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×