Sport

Útsölunni lokið hjá Juventus

fabio cannavaro Gekk í raðir Real Madrid í sumar.
fabio cannavaro Gekk í raðir Real Madrid í sumar. MYND/nordicphotos/getty images

Ítalska félagið Juventus segir að Patrick Vieira sé sá síðasti sem fer frá liðinu í sumar en frakkinn gekk í raðir Inter Milan í fyrradag. Eftir að Juventus var dæmt niður í Serie-B deildina hafa þeir neyðst til að selja Vieira, sem kostaði Inter 6,5 milljónir punda, Gianluca Zambrotta og Lilian Thuram til Barcelona auk Fabio Cannavaro og Emerson sem fóru til Real Madrid.

Þrátt fyrir að margir leikmenn ætli sér ekki að yfirgefa hina sökkvandi skútu Juventus halda vangaveltur áfram um framtíð manna á borð við Gianluigi Buffon, Mauro Camoranesi, David Trezeguet og Zlatan Ibrahimovic. Mörg lið í Evrópu hafa sýnt þessum leikmönnum áhuga og verður að teljast líklegt að tilboð berist í þá fyrir lok félagaskiptagluggans.

Ibrahimovic hefur hvað sterklegast verið orðaður við sölu frá félaginu en hann er talinn vera á leiðinni til AC Milan. Þrátt fyrir þetta eru forráðamenn ítalska liðsins eru staðráðnir í því að halda þeim mönnum sem ekki eru farnir til að tryggja Didier Deschamps sem bestan hóp til að koma liðinu sem fyrst aftur upp í Serie-A deildina.

"Trezeguet og Ibrahimovic verða áfram hjá okkur. Salan á Patrick Vieira verður sú síðasta í sumar. Ég er þreyttur á að þurfa að endurtaka mig, Buffon er ekki á förum né nokkrir af hinum leikmönnunum," sagði Jean-Claude Blanc, stjórnarformaður Juventus, við ítalska fjölmiðla í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×