Sport

Peter Crouch verður í byrjunarliðinu

crouch  Heillar stúlkurnar upp úr skónum með vélmennadansinum.
crouch Heillar stúlkurnar upp úr skónum með vélmennadansinum. MYND/afp

Sven-Göran Eriksson, landsliðsþjálfari Englendinga, mun að öllum líkindum snúa aftur í leikkerfið 4-4-2 í síðasta æfingaleik enska landsliðsins fyrir HM sem verður gegn Jamaika í dag. Peter Crouch skoraði gegn Ungverjalandi í vikunni eftir að hafa komið inn sem varamaður og verður líklegast í byrjunarliðinu og mun verða við hlið Michael Owen í fremstu víglínu.

"Við munum breyta leik okkar töluvert frá því á þriðjudaginn," sagði Eriksson á blaðamannafundi í gær. Jamie Carragher mun taka stöðu Gary Neville í hægri bakverðinum þar sem Neville á við smávægileg meiðsli að stríða en hann verður þó sem betur fer fyrir England orðinn leikfær í fyrsta leik riðlakeppninnar. "Hann hefði alveg getað spilað gegn Jamaika, meiðsli hans eru það smávægileg. Við tökum hins vegar enga áhættu," sagði Eriksson.

"Í þessum tveimur landsleikjum fyrir keppnina sjálfa prufum við tvær ólíkar leikaðferðir, við munum líklega notast við þær báðar á HM," sagði Eriksson. David Beckham, fyrirliði enska landsliðsins segir að leikmönnum liðsins líki betur við leikaðferðina 4-4-2.

Gaman verður að sjá hvort Crouch verði á skotskónum í leiknum í dag og bjóði jafnvel aftur upp á vélmennadansinn sem vakti mikla lukku gegn Ungverjum. Síðan Crouch tók dansinn hefur hann oft og tíðum fengið beiðnir um að endur­taka dansinn og gert það fúslega. Búist er við því að þessi dans verði sá heitasti á skemmtistöðum Englands og jafnvel víðar um þessa helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×