Sport

Jólaörtröðin er Eriksson að kenna

Sven-Göran er nú kennt um öngþveitið sem myndast hefur í leikjatöflunni um hátíðarnar
Sven-Göran er nú kennt um öngþveitið sem myndast hefur í leikjatöflunni um hátíðarnar NordicPhotos/GettyImages

Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar eru mjög óhressir með það uppistand sem hefur orðið á keppninni um jólin, þar sem fresta hefur þurft leikjum vegna kulda og snjóa, en forráðamenn liðanna í deildinni hafa einnig kvartað sáran undan of miklu leikjaálagi yfir hátíðarnar. Þetta mun allt saman vera Sven-Göran Eriksson, landsliðsþjálfara Englendinga að kenna að þeirra mati.

Eriksson gerir þær kröfur að fá í það minnsta fjórar vikur í undirbúning með landslið Englendinga fyrir HM í Þýskalandi og því hefur krafan verið að þjappa til í leikjaniðurröðun í ensku úrvalsdeildinni.

"Liðin eiga mjög erfitt um vik í kring um hátíðarnar, þar sem spilað er mjög þétt," sagði Dan Johnson, talsmaður úrvalsdeildarinnar. "Knattspyrnusambandið samdi um að Eriksson fengi fjórar vikur til að undirbúa landsliðið í lok tímabilsins, en ef einhver getur komið með lausn sem gerir það að verkum að hægt sé að vera með smá vetrarfrí í deildinni í janúar, yrði því svo sannarlega tekið feginshendi," sagði Johnson.

Mikið fjaðrafok hefur skapast í kjölfar þess að fresta þurfti fjölda leikja um jólin vegna kulda, en íþróttamálaráðherran sjálfur hefur sent mönnum pistilinn vegna þess og segir frestanir þessar óásættanlegar. "Ég mun fara fram á rannsókn á þessu máli og þetta verður klárlega að bæta í framtíðinni. Það er ekki hægt að menn séu að fresta leikjum hálftíma áður en þeir eiga að fara fram. Það er dónaleg framkoma við stuðningsmenn sem þvælast landið á enda," sagði Richard Caborn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×