Sport

Ætlar að skora 100 mörk fyrir Chelsea

Eiður Smári stefnir á að skora 100 mörk fyrir Chelsea á ferlinum
Eiður Smári stefnir á að skora 100 mörk fyrir Chelsea á ferlinum NordicPhotos/GettyImages

Eiður Smári Guðjohnsen segir að hann hafi sett stefnu á að skora 100 mörk fyrir Chelse á ferlinum, en tekur þó fram að hann sé í raun meira fyrir það að skapa færi fyrir aðra en að skora þau sjálfur og segist kunna ágætlega við að spila á miðjunni.

"Það væri vissulega frábært að ná að skora 100 mörk fyrir Chelsea. Það er erfitt að segja hvort ég muni ná þeim áfanga, því enn er langt í það, en maður veit aldrei hvað gerist næst í fótboltanum," sagði Eiður, sem hefur skorað yfir 60 mörk fyrir Chelsea.

"Ég hef í raun aldrei litið á mig sem góðan markaskorara, en lít frekar á mig sem mann sem skorar góð mörk þegar hann skorar á annað borð. Sam Allardyce og Claudio Ranieri voru alltaf að jagast í mér að skora meira af einföldum mörkum, en þetta er eitthvað sem ég get enn bætt í leik mínum," sagði Eiður og bætti við að það væri afar mikilvægt fyrir framherja að fá að spila og að skora mörk reglulega.

"Maður verður alltaf að sanna sig þegar maður fær tækifæri til að spila þegar liðið er með jafn stóran leikmannahóp og við höfum. Maður reynir því að vera ekki að velta sér uppúr því ef maður lendir í mótbyr, því ef maður fer að hengja haus yfir mótlætinu, hefur það slæm áhrif á sjálfstraustið og þá verður erfiðara að skora mörk."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×