Innlent

Segir Mjólkursamsöluna hafa hlunnfarið sig

Í húsnæði Mjólkursamsölunnar.
Í húsnæði Mjólkursamsölunnar.

Bóndi hefur stefnt Mjólkursamsölunni fyrir að hafa hlunnfarið sig við uppgjör á stofnfjársjóði Samsölunnar. Sams konar mál varða um 500 aðra bændur sem samanlagt ættu tugmilljóna króna kröfu á Samsöluna ef dómstólar fallast á kröfu bóndans.

Sigurbjörn Hjaltason, bóndi á Kiðafelli í Kjós, var nýlega hættur kúabúskap þegar stjórn Samsölunnar ákvað að úthýsa 500 fyrrverandi mjólkurframleiðendum á einu bretti úr félaginu, gera upp við þá framlag þeirra í stofnsjóði samkvæmt gömlum reglum, en uppfæra svo sjóðinn strax á eftir, samkvæmt nýjum samþykktum þannig að bændurnir 500 fengu ekki nema brot af því sem þeir hefðu fengið samkvæmt nýju uppfærslunni.

Dæmi Sigurbjörns er þannig að hann fékk 227 þúsund krónur greiddar, en með uppfærslunni hefði sú tala margfaldast, og orðið tæplega ein og hálf milljón króna. Dómsmálaráðherra hefur veitt Sigurbirni gjafsókn í málinu, sem snýst um það að Sigurbirni og þar með 500 öðrum bændum, sem voru eigendur að Mjólkursamsölunni, var úthýst úr félaginu með ólögmætum hætti, að mati Sigurbjörns. Þess vegna nutu þeir ekki uppfærslu á stofnsjóðnum.

Sigurbjörn sagði í viðtali við NFS í morgun að hann hafi leitað allra leiða til að ná sáttum í málinu við stjórn Samsölunnar, og auk þess l leitað á náðir landbúnaðarráðherra, sem tekið hafi málaleitan hans vel,en allt án árangurs. Þrautalendingin sé því að fara með málið fyrir dómnstóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×