Sport

NBA karfan, Hnefaleikar og A1 í beinni

Tim Duncan og félagar í San Antonio eru núverandi NBA meistarar og afar erfiðir heim að sækja
Tim Duncan og félagar í San Antonio eru núverandi NBA meistarar og afar erfiðir heim að sækja NordicPhotos/GettyImages

San Antonio Spurs og Phoenix Suns, liðin sem börðust í úrslitum Vesturdeildarinnar í NBA í fyrra, eigast við í beinni útsendingu á NBA TV í nótt, en auk þessa verður nóg um að vera á sjónvarpsstöðinni Sýn í nótt og í fyrramálið, þar sem boðið verður upp á hnefaleika og kappakstur í beinni útsendingu.

San Antonio hefur byrjað leiktíðina nokkuð vel, þrátt fyrir nokkur meiðsli leikmanna liðsins. Liðið hefur unnið sjö af fyrstu níu leikjunum og þar af alla fjóra heimaleiki sína. Tony Parker er stigahæstur í liðinu fram að þessu með 21,6 stig að meðaltali í leik og 6,3 stoðsendingar, en Tim Duncan skorar að meðaltali 21,4 stig og hirðir rúm 11 fráköst.

Phoenix hefur unnið fjóra leiki og tapað fjórum það sem af er leiktíðinni, en liðið hefur aðeins spilað tvo útileiki og hefur unnið þá báða. Shawn Marion er stigahæstur í liði Phoenix með rúm 18 stig að meðaltali í leik og hirðir 12,3 fráköst, en Steve Nash kemur þar á eftir með 16,6 stig og gefur 11,4 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Leikurinn hefst klukkan 01:30 í nótt og er eins og áður sagði í beinni útsendingu á NBA TV í Sportpakkanum á Digital Ísland.

Þá er rétt að minna á bardaga Floyd Mayweather og Sharmba Mitchell klukkan 2 á Sýn í nótt og svo heimsbikarmótið í kappakstri, A1, en bein útsending frá Malasíukappakstrinum hefst klukkan 04:55.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×