Erlent

Talsvert um smölun

Þó nokkur smölun í Sjálfstæðisflokkinn hefur þegar átt sér stað vegna prófkjörs flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Þá hafa um 250 manns þegar greitt atkvæði utan kjörstaðar.

Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, segir kjörsóknina utan kjörstaða mjög svipaða nú og alla jafna í prófkjörum flokksins í Reykjavík. Hann segist þó eiga von á því að heildarkjörsókn nú verði jafnvel meiri en alla jafna. Síðast kusu átta þúsund manns úí prófkjöri Sjálkfstæðisflokksins í Reykjavík og Kjartan á von á því að nokkru fleiri kjósi nú. Alls eru á milli sextán og sautján þúsund manns á kjörskrá.

Kjartan segir að þó nokkuð af nýju fólki hafi skráð sig í Sjálfstæðisflokkinn undanfarið. Hann vill þó ekki meina að meiri smölun hafi átt sér stað nú en alla jafna í aðdraganda prófkjörs í Reykjavík.

Bæði Gísli Marteinn Baldursson og Vilhjálmur Vilhjálmsson, sem berjast um fyrsta sætið, segja að fjöldi fólks hafi skráð sig í flokkinn undanfarið gagngert til að kjósa í prófkjörinu.

Gísli segist hafa unnið ötullega að því ásamt fleirum að fá nýtt fólk í flokkinn og segir þá sem hafa skráð sig í flokkinn gagngert til að kjósa sig, hlaupa á hundruðum. Hann á von á því að fleiri bætist í þann hóp á næstu dögum.

Vilhjálmur segist ekki hafa beitt sér sjálfur í þessum málum, en segir að margir vinni fyrir sig og fjöldi óflokksbundins fólks hafi lýst yfir vilja til að ganga í flokkinn til að kjósa sig.

Fyrstu tölur úr prófkjörinu birtast um klukkan sex á laugardaginn og endanleg úrslit ættu að liggja fyrir þegar líða tekur á kvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×