Innlent

Norrænir karlar bera ábyrgð

Í tillögu sem liggur fyrir þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík er þeim tilmælum beint til stjórnvalda á Norðurlöndum að þau hafi frumkvæði að rannsóknum sem upplýst geti hverjir standi á bak við mansal þannig að unnt verði að sækja þá til saka. Tillagan kemur frá svonefndri borgara- og neytendanefnd og er samin að frumkvæði flokkahóps vinstri sósíalista og grænna.

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og fulltrúi í hópnum, segir að markmiðið sé að fórnarlömb mansals á Norðurlöndum fái einhverja úrlausn.

"Þetta snýst um að vísa ekki þessum stúlkum úr landi heldur að gangast við því að það eru norrænir karlar sem hafa búið til markað fyrir þær. Við verðum að veita þeim félagslegan stuðning. Þær þurfa dvalarleyfi, lögfræðiaðstoð og húsaskjól og almennan stuðning til að koma sér út í lífið á ný. Ef Norðurlöndin sýna ekki ábyrgð í þessum efnum - hver gerir það þá?" spyr Kolbrún.

Búist er við að þing Norðurlandaráðs samþykki tillöguna og að skýrsla um málið liggi fyrir í ágúst á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×