Eriksson í vandræðum með bakverði
Sven-Göran Eriksson, landsliðsþjálfari Englendinga, á í mesta basli með að velja í bakvarðastöðurnar í liðinu fyrir leikinn gegn Austurríkismönnum um helgina, eftir að í ljós kom að Ashley Cole verður frá í nokkrar vikur vegna meiðsla. Eriksson valdi Steve Warnock hjá Liverpool í lið sitt í stað Cole, en þarf nú að gera upp við sig hvort hann notar Jamie Carragher, Phil Neville eða Kieran Richardsson í stöðu Cole í enska landsliðinu. Gert er ráð fyrir að Luke Young muni áfram fylla skarð Gary Neville í stöðu hægri bakvarðar. "Það er synd að Ashley Cole sé meiddur, því hann er að mínu mati einn allra besti vinstri bakvörður í heiminum í dag. Maður verður samt að koma í manns stað og ég verð bara að nota þann efnivið sem ég hef hverju sinni," sagði Eriksson.