Sport

Jóna æfir sig í frönsku

Það má með sanni segja að Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir, sextán ára gömul stúlka frá Neskaupstað, hafi dottið í lukkupottinn þegar henni var boðið að skrifa undir samning hjá franska blakliðinu Racing Club de Cannes, en það er eitt sterkasta blaklið Evrópu. Jóna Guðlaug ákvað að slá til og skrifaði undir sjö ára langan samning. Jóna hefur leikið með yngri flokkum Þróttar í Neskaupstað alla sína tíð og hefur verið talin efnilegasta blakkona landsins undanfarin ár. Jóna er nú farin að æfa í Cannes. "Við erum byrjaðar að æfa af fullum krafti. Annars er ég að læra frönskuna núna og ætla mér svo að fara í framhaldsskóla hérna þegar ég hef náð góðum tökum á tungumálinu. Mér líst vel á mig og vonandi gengur þetta vel. Ég verð hérna að minnsta kosti þangað til ég fæ heimþrá." Petrún Björg Jónsdóttir, sem nú þjálfar hjá Þrótti í Reykjavík, var þjálfari Jónu þegar hún byrjaði að spila blak í Neskaupstað og það kemur henni ekki á óvart að hún sé að ná góðum árangri. "Það kemur mér alls ekki á óvart. Það sýndi sig fljótt að hún hefur hugarfar til þess að ná langt sem íþróttamaður. Að auki er hún einstaklega kraftmikil og hávaxin sem hjálpar auðvitað til í blakinu. Hún var snemma farin að láta að sér kveða hjá Þrótti og vonandi á þetta eftir að ganga vel hjá henni." Petrún segir sjaldgæft að íslenskar stelpur komist að hjá stórum liðum í Evrópu. "Það hafa nokkrar stelpur farið til Bandaríkjanna á skólastyrk en fáar til Evrópu. Það verður því forvitnilegt að fylgjast með því hvernig þetta gengur hjá Jónu."Það má með sanni segja að Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir, sextán ára gömul stúlka frá Neskaupstað, hafi dottið í lukkupottinn þegar henni var boðið að skrifa undir samning hjá franska blakliðinu Racing Club de Cannes, en það er eitt sterkasta blaklið Evrópu. Jóna Guðlaug ákvað að slá til og skrifaði undir sjö ára langan samning.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×