Sport

Boris að slá í gegn í Kína

Kristinn Óskar Haraldsson "Boris" er að standa sig ágætlega í Chengdu í Kína um þessar mundir, þar sem hann stendur í ströngu í undankeppninni um titilinn Sterkasti maður heims. Boris hefur unnið hug og hjörtu heimamanna með glettni sinni og tilburðum, en mikill áhugi ku vera á kraftasportinu þarna austurfrá. Boris gekk ekki vel í burðar og dráttargreininni, en sigraði í Víkingalyftu og varð þriðji í hnébeygjugreininni. Að sögn Hjalta "Úrsusar" Árnasonar, sem er staddur ytra með Boris ásamt Auðunni Jónssyni, hefur Boris átt hug og hjörtu heimamanna. Hann hefur verið iðinn við að veita þarlendum sjónvarpsstöðvum viðtöl og sló á létta strengi í gær og lyfti einum heimamanninum upp yfir höfuðið og hljóp með hann um svæðið til að undirstrika styrk sinn. Keppni heldur áfram núna í nótt og við munum fylgjast vel með gangi mála hjá okkar manni ytra á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×