Innlent

Hrossadeyfilyf notað sem dóp

Deyfilyf fyrir hross eru nýjasta fíkniefnið í tísku á næturklúbbum Bretlands. Lyfið er mjög ávanabindandi og sífellt fleiri ungmenni þurfa á meðferð að halda eftir að hafa orðið háð því. Ketamín er yfirleitt notað af dýralæknum til deyfinga og svæfinga. Á næturklúbbum Bretlands er það nú þekkt sem K eða Special K. Það er yfirleitt selt í duft- eða töfluformi og er það tekið í nefið eða gleypt og veldur þá sælutilfinningu og ofskynjunum. Síðasta árið hefur það fundist í mjög auknum mæli meðal ungs fólks í næturlífi breskra borga. Það tók fréttamann Sky-sjónvarpsstöðvarinnar aðeins tíu mínútur að nálgast efnið á götum Lundúna. Þar var honum boðið gramm af ketamíni fyrir 1700 íslenskar krónur. Lyfið er mjög ávanabindandi og sífellt fleiri ungmenni þurfa á meðferð að halda eftir að hafa orðið háð því. Annað sem veldur lögreglu áhyggjum er að lyfið er lyktar og bragðlaust svo hægt er að setja það í drykki án vitundar fólks og valdið minnisleysi. Það hefur verið notað þannig af kynferðisbrotamönnum. Við ofneyslu lyfsins geta komið fram hroðalegar ofskynjanir, líkt og við ofneyslu LSD. Við litla neyslu geta hlotist af mjög skaðleg áhrif, meðal annars á minni og hreyfigetu og enn fremur fylgir oftar en ekki þunglyndi og öndunarerfiðleikar af neyslu lyfsins í tiltölulega litlum mæli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×