Innlent

Vonast eftir refsilækkun

Mál Hákonar Eydals, sem banaði fyrrverandi sambýliskonu sinni og barnsmóður, Sri Rahmawati í fyrrasumar, var flutt í Hæstarétti í gær. Dóms er að vænta innan tíðar. Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður fer með mál Hákonar, en um flutning þess í gær sá Benedikt Ólafsson héraðsdómslögmaður, en málið er hans þriðja prófmál. Brynjar segir helst horft til refsiákvörðunar dómsins, en í héraði var Hákon dæmdur í sextán ára fangelsi, auk þess að greiða börnum Sri 22 milljónir króna í skaðabætur. Brynjar telur ákveðnar aðstæður fyrir hendi sem leitt gætu til lækkunar refsingar Hákonar þar sem afbrot hans hafi verið framið í mikilli geðshræringu. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í mars síðastliðnum kemur fram að ákvörðun refsingar hafi að nokkru ráðist af framferði Hákonar eftir morðið, en hann reyndi að afmá ummerki og leyna gjörðum sínum. Lík Sri Rahmawati fannst ekki fyrr en eftir viðamikla leit, um mánuði eftir að hún var myrt, en því hafði verið fyrir komið í djúpri og þröngri hraunsprungu sunnan Hafnarfjarðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×