Sport
Mandaric enn að verja Perrin
Milan Mandaric, stjórnarformaður Portsmouth, sá í morgun ástæðu til að koma knattspyrnustjóra sínum Alain Perrin til varnar í enn eitt skiptið og fullyrðir að ekkert sé til í staðhæfingum fjölmiðla um að þeim franska hafi verið gefnir fimm leikir til að sanna að hann valdi starfi sínu, ella verði hann rekinn. "Ég veit ekki hvaða læti þetta eru í blaðamönnum í kring um Alain. Allir vita að byrjun okkar í deildinni hefur verið erfið, en það er ekkert til í því að stjórinn sé á síðasta snúningi í starfi sínu. Rétt eins og við ætlum ekki að missa okkur í óðagot yfir því að illa gekk í fyrstu leikjunum, ætlum við ekki að missa okkur í of mikla bjartsýni þó við höfum sigrað Everton um liðna helgi. Það hafa komið margir nýjir leikmenn til liðsins að undanförnu og við vitum að það tekur tíma að slípa liðið saman," sagði Mandaric.