Tevez sektaður fyrir klæðaburð
Carlos Tevez, framherji Corinthians í Brasilíu, hefur verið sektaður um sem samsvarar 20% mánaðarlauna sinna, fyrir að mæta á blaðamannafund liðs síns klæddur búningi Manchester United. Þetta þótti forráðamönnum liðsins vera mikil vanvirðing við klúbb sinn, en leikmaðurinn sjálfur skildi hvorki upp né niður í þessum hörðu viðbrögðum. "Ég fæ þessi föt frá styrktaraðila mínum, Nike fyrirtækinu, og ég hef hingað til fengið að klæðast fatnaði þeirra án þess að gera allt vitlaust," sagði Tevez, sem reif sig loks úr bolnum og sagði "jæja, eruð þið ánægðir núna?"