Sport

Jenas saknar ekki Newcastle

Enski landsliðsmaðurinn Jermaine Jenas, sem nýverið gekk í raðir Tottenham Hotspurs, segist ekki sakna þess að leika með Newcastle, því sér hafi fundist sem hann næði ekki að þroskast sem leikmaður í röðum félagsins. Jenas var lítt hrifinn af knattspyrnustjóranum Graeme Souness og það var öðru fremur ósætti þeirra tveggja sem varð til þess að Jenas fór fram á það að vera seldur frá félaginu. "Stuðningsmenn Newcastle eru frábærir, en mér þótti ég ekki eiga möguleika á að bæta mig meira sem leikmaður hjá félaginu. Það er fínt að vera þar þegar vel gengur, en þegar á móti blæs, er andrúmsloftið á St. James´ Park nokkuð þungt og því er ég himinlifandi yfir því að fá að byrja upp á nýtt hjá Tottenham," sagði Jenas, sem væntir þess að verða í liði Tottenham á morgun þegar það leikur við Liverpool.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×