Beckham blæs á gagnrýni
David Beckham, fyrirliði enska landsliðsins í knattspyrnu, var ekki sáttur við þá gagnrýni sem hann fékk frá knattspyrnuspekingum á Englandi í gær, en þeir Terry Butcher og Alan Hansen létu báðir hafa eftir sér í gær að dagar fyrirliðans væru brátt taldir í liðinu. Butcher var sjálfur fyrirliði enska liðsins á sínum tíma og gagnrýni hans og Alan Hansen beindist að frammistöðu fyrirliðans í undanförnum leikjum. "Ástarsambandi ensku þjóðarinnar við David Beckham fer brátt að ljúka," sagði Hansen. Beckham var orðvar þegar hann svaraði gagnrýni þessari í gærkvöldi, en lét efasemdamennina þó heyra sína skoðun á málinu. "Það er sorglegt þegar menn detta niður á þetta plan þegar þeir eru að gagnrýna leikmenn sem standa í ströngu fyrir þjóð sína, en svona er þetta víst í dag," sagði Beckham. "Ég virði Terry Butcher sem fyrrum leikmann og fyrirliða Englands, en ég býst við að allir eigi rétt á sinni skoðun. Ég myndi líklega bara taka í hendina á honum ef ég hitti hann á götunni í dag, þó hann skrifi þetta um mig í blöðunum. Ég verð sjálfsagt að teljast heppinn að Alan Hansen er ekki landsliðsþjálfari Englendinga, því þá ætti ég ekki möguleika á að komast í liðið, " sagði Beckham.