Sport

Cole dettur úr byrjunarliði enskra

NordicPhotos/GettyImages
Sven-Göran Eriksson, landsliðsþjálfari Englendinga, áformar að spila áfram leikkerfið 4-5-1 í leiknum við Norður-Íra í undankeppni HM í kvöld, en endurkoma Michael Owen inn í byrjunarliðið þýðir sennilega að Joe Cole missi sæti sitt frá síðasta leik. Cole skoraði sigurmark enska liðsins gegn Wales í vikunni, en það virðist ekki ætla að aftra Svíanum frá því að setja hann á tréverkið."Það er erfitt að setja markaskorarann úr síðasta leik á varamannabekkinn, en svona er nú einu sinni starf mitt. Ég hefði viljað spila 4-4-2, en til þess þarf ég að hafa miðjumennina í toppformi og það hef ég ekki sem stendur," sagði Eriksson og vitnaði í daufa frammistöðu Frank Lampard fram til þessa. Talið er víst að Michael Owen muni verða einn í fremstu víglínu í dag og að Wayne Rooney taki stöðu Joe Cole á vinstri vængnum. Að öðru leiti verður enska liðið að mestu óbreytt, en ekki er gert ráð fyrir að Norður-Írarnir verði þeim mikil fyrirstaða. Leikur Norður-Íra og Englendinga verður sýndur á sjónvarpsstöðinni Sýn klukkan 20:35 í kvöld. Áður verða á dagskrá leikur Búlgaríu og Íslands klukkan 15:45 og svo eigast Frakkar og Írar einnig við, en sá leikur verður sýndur klukkan 18:30.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×