Sport

Jol semur við Tottenham

Hollenski knattspyrnustjórinn Martin Jol hefur undirritað nýjan þriggja ára samning við Tottenham,  sem gilda mun út næsta ár og býður upp á möguleika á eins árs framlengingu eftir það, en Jol tók við liðinu af Frakkanum Jaques Santini í byrjun síðasta tímabils. Jol átti upphaflega aðeins að vera aðstoðarknattspyrnustjóri liðsins, en eftir að hann fékk tækifæri til að stýra liðinu í fyrra þótti mönnum hann standa sig með mikilli prýði. Samningurinn sem Jol unirritaði í gær gildir fyrir árið í fyrra, árið í ár og næsta ár. Tottenham er sem stendur í öðru sæti úrvalsdeildarinnar og þar á bæ ríkir mikil bjartsýni eins og reyndar endranær. "Ég er hæstánægður með að hafa framlengt samning minn við þetta frábæra félag og ég hef tröllatrú á því sem verið er að gera hjá Tottenham, " sagði hinnn geðþekki Jol. "Stefna félagsins er að fá til sín unga leikmenn til að byggja upp og búa til sterkt lið um ókomna framtíð. Mörg af liðunum í úrvalsdeildinni gefa sig út fyrir að vinna þannig, en hjá okkur er það svo sannarlega raunin eins og sést á hópnum hjá okkur," sagði Jol, sem undirbýr lið sitt nú fyrir erfiðan slag við Chelsea á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×