Innlent

Lögreglan var við að missa tökin

"Okkur fannst á tímabili að við værum jafnvel að missa þetta allt saman yfir okkur. Það var alveg á mörkunum," segir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, um ástandið sem skapaðist í miðborg Reykjavíkur eftir miðnætti á nýafstaðinni menningarnótt. "Þarna voru fjórir stórir hópar á fjórum stöðum í miðbænum, sem voru mjög árásargjarnir. Það mátti engu muna. Tvö hnefahögg milli tveggja einstaklinga verða til að þess að 50 til 60 krakkar ærast og hlaupa á eftir einum og ganga í skrokk á honum - allt þar til lögreglan skakkar leikinn. Það vissi enginn af hverju þetta var. Spennan var með þessum hætti og múgæsing greip um sig." Geir Jón segir að menn muni setjast niður og ræða til hvaða ráða sé hægt að grípa því svona nokkuð sé ekki hægt láta líðast ár eftir ár. Jóna Hrönn Bolladóttir miðborgarprestur tekur undir þetta og segir þá sem voru að störfum nóttina eftir að dagskrá menningarnætur lauk hafi verið óttaslegna. Hún undirstrikar að menningarnóttin sjálf sé frábær viðburður. "Undanfarin fimm ár hef ég verið með sjálfboðaliða við leitarstörf í miðborginni eftir miðnætti. Þar hefir orðið mjög hröð og vond breyting. Þetta hefur orðið fylleríisnótt sumarsins. Við sjáum og skynjum mikið fyllerí fólks á öllum aldri, unglingafyllerí, fíkniefnaneyslu, spennuþrungið og hættulegt ástand." Jóna Hrönn segir, að hún og aðrir sjálfboðaliðar sem voru í bænum eftir miðnætti á menningarnótt fyrir fjórum árum hafi verið í "stórri lífshættu." Þá var eins og nóttin lenti skyndilega í herkví neikvæðra afla. Síðan hafi fjöldi þeirra sem hafi verið í neyslu áfengis og fíkniefna þessa nótt farið vaxandi frá ári til árs. "Við vorum að sjá unglinga niður í 14 til 15 ára aldur þvælast í miðborginni um miðja nótt," segir hún. "Þetta var hópur sem sést alla jafna ekki í miðborginni um nætur. Ég sá þarna unglinga sem ég þekki til og veit að vel er staðið að. Þau voru þarna alltof lengi - við alltof hættulegar aðstæður. Ef það er svona óskaplega spennandi að koma þessa nótt í miðborgina, þá verðum við foreldrarnir að fylgja með. Það er okkar hlutverk að vernda þau," segir Jóna Hrönn Bolladóttir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×