Innlent

Unnið verði að endurskoðun

Það þarf að skoða hvernig hægt sé að koma í veg fyrir ástand eins og skapaðist í miðborginni eftir flugeldasýninguna í gærkvöldi. Þetta segja borgarstjóri og yfirlögregluþjónn í Reykjavík. Ástandið í lok Menningarnætur nú var svipað og fyrir tveimur árum þegar mikið var um slagsmál og læti í miðborginni eftir flugeldasýninguna. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri segir að stöðugt sé verið að endurskoða fyrirkomulag Menningarnætur. Hún segist mjög ánægð með hvernig til tókst um daginn. Viðbragðsaðilar hafi fundað þar sem farið hafi verið yfir alla þætti. Fólki hafi borið saman um að að mörgu leyti hefði hátíðin tekist vel til í ár en að sjálfsögðu sé full ástæða til að skoða hvað megi betur fara. Sjálfri hafi henni fundist aðeins of mikið fyllirí í miðbænum. Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Hann segir að skoða verði hvað sé undirliggjandi. Ástandið hafi verið mjög svipað og í hitteðfyrra en ekkert svona hafi gerst í fyrra, en þá hafi veðrið hafi verið einstaklega gott. Nú verði lagst yfir málin fram að næstu Menningarnótt, þetta verði ekki látið gerast aftur. Aðspurð hvaða breytingar hún telji að eigi að gera segir Steinunn Valdís að hún vilji ekkert segja um það á þessari stundu. Borgaryfirvöld eigi eftir að fara yfir málin með verkefnisstjórn Menningarnætur. Það sé ekkert víst að það þurfi að gera neinar breytingar en farið sé yfir málin á hverju ári og reynt að endurskoða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×