Innlent

Tvítugur maður stunginn til bana

Tvítugur Reykvíkingur var stunginn til bana í kjallaraíbúð við Hverfisgötu 58 í gærmorgun. 23 ára karlmaður var í gær úrskurðaður í gæsluvarðhald, grunaður um að hafa stungið hinn látna í vinstra brjóstholið. Þeir voru saman í samkvæmi í húsinu ásamt húsráðendum, karli og konu á fimmtugsaldri, og karlmanni um tvítugt. Orsakir morðsins liggja ekki ljósar fyrir að sögn lögreglu. Neyðarlína fékk tilkynningu klukkan hálf tíu í gærmorgun um að maður væri lífshættulega særður. Lögregla og slökkvilið komu fljótlega á staðinn og var reynt að lífga unga manninn við en hann lýstur látinn klukkan ellefu. Fólkið hafði verið saman í gleðskap frá því fyrr um morguninn þegar maðurinn var stunginn. Enga áverka var að sjá á þeim fjórum sem voru í samkvæminu með hinum látna og segja nágrannar og lögregla að ekkert hafi heyrst sem gefi átök til kynna. Útlit er fyrir að árásarmaðurinn hafi stungið hinn látna í stundaræði. Fjórmenningarnir sem voru í húsinu voru allir handteknir og færðir til yfirheyrslna. Fólkið var í annarlegu ástandi og hefur allt komið við sögu lögreglunnar áður. Síðar í gær var fimmti einstaklingurinn handtekinn, maður um tvítugt, en sá var talinn búa yfir upplýsingum sem gætu reynst mikilvægar við rannsókn málsins. Þeir sem voru handteknir þekktu allir hinn látna. Eftir yfirheyrslur var 23 ára maður færður fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þar var hann úrskurðaður í tíu daga gæsluvarðhald meðan unnið er að rannsókn málsins. Hitt fólkið var yfirheyrt fram á kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×