Innlent

Tíu daga varðhald vegna morðs

Tvítugur piltur var stunginn til bana í miðborg Reykjavíkur í morgun. 23 ára gamall karlmaður er grunaður um verknaðinn og hefur hann verið úrskurðaður í 10 daga gæsluvarðhald. Lögreglunni barst tilkynning um klukkan hálftíu í morgun um að maður hefði verið stunginn í húsi við Hverfisgötu í Reykjavík. Hinn stungni var fæddur árið 1985 og var því rétt um tvítugt. Hann var færður á sjúkrahús þar sem hann lést skömmu síðar. Lögregla tók fjóra menn sem voru gestkomandi í íbúðinni til yfirheyrslu. Einn þeirra sem handtekinn var í morgun er grunaður um að hafa banað manninum með einni hnífsstungu í hjartastað. Hann er 23 ára og var undir kvöld úrskurðaður í 10 daga gæsluvarðhald. Hin þrjú, tveir karlar og ein kona, eru áfram í yfirheyrslu og í haldi lögreglu. Þau eru á fertugs- og fimmtugsaldri. Síðdegis var svo karlmaður á þrítugsaldri handtekinn og færður til yfirheyrslu, en hann er er talinn búa yfir vitneskju um atburðinn. Bæði hinn myrti sem og sá er grunaður er um að vera banamaður hans voru gestkomandi í íbúðinni á Hverfisgötu. Lögregla hefur margsinnis haft afskipti af öllu þessu fólki á undanförnum árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×