Skin og skuggar 18. ágúst 2005 00:01 Í hvoru landinu skyldi vera betra að búa, Bandaríkjunum eða Frakklandi? Um það er deilt eins og eðlilegt er; hverjum þykir sinn fugl fagur. Bandaríkin eru næstríkasta land heims miðað við landsframleiðslu á mann. Lúxemborg er eina landið, þar sem framleiðsla á mann var meiri en í Bandaríkjunum í fyrra, 2004. Frakkland er í sautjánda sæti listans; þar eru tekjur á mann fjórðungi minni en í Bandaríkjunum. Á hinn bóginn þurfa Frakkar að hafa minna fyrir lífinu en Bandaríkjamenn. Frakkar vinna að jafnaði skemmri vinnuviku, ef þeir vinna úti á annað borð, þeir taka sér lengri frí og verja meiri tíma með fjölskyldum sínum og vinum. Frakkar hafa minni tekjur en Bandaríkjamenn, rétt er það, og þannig vilja þeir hafa það. Þeir búa samt við betri lífskjör en Bandaríkjamenn í þeim skilningi, að landsframleiðsla Frakka á hverja vinnustund er sjöttungi meiri en í Bandaríkjunum. Frakkar segja: lífskjör snúast bæði um magn og gæði. Þar að auki er tekjum og eignum jafnar skipt milli þegnanna í Frakklandi en í Bandaríkjunum. Í hvoru landinu er þá betra að búa? Þessu þarf hver og einn að svara fyrir sig, því að svarið fer m.a. eftir því, hversu miklu menn eru fúsir að fórna fyrir frístundir með fjölskyldum sínum og vinum og fyrir þokkalegan jöfnuð milli þegnanna, og það er misjafnt. Samanburður á lífskjörum hér heima og í Danmörku veltur á sömu sjónarmiðum. Við erum svolitlu ríkari en Danir miðað við landsframleiðslu á mann; við skipuðum sjötta sæti heimslistans 2004, Danir sjöunda. En við þurfum að hafa meira fyrir hlutunum en Danir, miklu meira. Framleiðsla á hverja vinnustund – öðru nafni vinnuframleiðni – er röskum fjórðungi meiri í Danmörku en á Íslandi. Framleiðsla á hverja vinnustund 2004 var 42 Bandaríkjadollarar í Danmörku á móti tæplega 33 dollurum hér heima. Ísland skipar nítjánda sæti listans yfir ríkustu lönd heims á þennan kvarða, Danmörk tíunda sætið, Bandaríkin sjöunda og Frakkland þriðja. Norðmenn verma fyrsta sætið á listanum; framleiðsla á hverja vinnustund í Noregi er 57 dollarar á móti 51 í Frakklandi og 44 í Bandaríkjunum. Þessi kjarasamanburður tekur mið af því, að verðlag er mishátt eftir löndum, m.a. af því að búskaparlagið er mishagkvæmt. Allar þær þjóðir, sem okkur er tamast að bera okkur við, eru fyrir ofan Ísland á listanum. Og hvað með það? Sumir gleðjast yfir mikilli vinnu og meta kjör sín eftir afrakstri vinnunnar án tillits til erfiðisins, sem að baki býr. Það er skiljanlegt sjónarmið, ef menn líta á vinnu sem takmark í sjálfri sér. Aðrir efast um ágæti mikils vinnuálags, því að það getur bitnað á ýmsu öðru, sem mönnum er mikils virði, svo sem barnauppeldi og farsælu fjölskyldu- og félagslífi. En eitt er víst: langflestir myndu taka því fegins hendi að fá að vinna minna og halda samt óskertu kaupi. Af því má ráða, að framleiðsla á hverja vinnustund – framleiðni! – er betri lífskjarakvarði en framleiðsla á mann. Hér er vandinn sá, að áreiðanleg og sambærileg gögn um vinnuframleiðni eru vandfundin, þar eð mat á fjölda vinnustunda í ólíkum löndum er háð ýmislegri óvissu. Það er á hinn bóginn hægðarleikur að hafa tölu á mannfjöldanum. Þess vegna styðjast menn jafnan heldur við tölur um framleiðslu á mann frekar en framleiðslu á vinnustund – eins og maðurinn, sem leitaði að lyklinum undir ljósastaurnum, þótt hann hefði týnt honum annars staðar. Tölurnar um vinnuframleiðni að framan eru sóttar til Groningenháskóla í Hollandi og munu trúlega með tímanum ryðja sér braut inn í alþjóðaskýrslur um efnahagsmál. Það er m.ö.o. ekki framleiðsla lands og þjóðar, sem mestu ræður um lífskjörin, þegar öllu er á botninn hvolft, heldur vinnuframleiðnin. Þetta er ein skuggahliðin á velgengni Íslands undangengin ár og vitnar enn sem jafnan fyrr um margvíslega óhagkvæmni, sem heldur áfram að hamla íslenzku efnahagslífi, þótt margt hafi að sönnu breytzt til batnaðar undangengin ár. Við höfum miklar tekjur og þurfum að hafa mikið fyrir þeim, ekki aðeins með þrotlausri vinnu, heldur einnig t.d. með því að safna skuldum. Ofveiði til sjós, uppblástur landsins og ýmis önnur vanhirða eru angi á sama meiði. Við getum gert betur. Við þurfum að búa svo um hnútana, að okkur sé kleift að lifa góðu og gjöfulu lífi í landinu án þrúgandi fyrirhafnar og án þess að ganga á eignir okkar og innstæður. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Af hverju eru kennarar að fara í verkfall? Anton Már Gylfason Skoðun Hefjum aðildarviðræður við Bandaríkin Einar Jóhannes Guðnason Skoðun Val Vigdísar Skúli Ólafsson Skoðun Vísvita villandi fréttaflutningur Morgunblaðsins? Sigurjón Þórðarson Skoðun Árið 1975 er að banka Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Eru tengsl milli Úkraínustríðsins og breyttrar stöðu Grænlands? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Kennarar segja: „Nóg komið!“ – Verkfall fyrir virðingu og verðskulduð réttindi Jónas Sen Skoðun Vegna greinar Snorra Mássonar Guðmundur Andri Thorsson Skoðun Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson Skoðun
Í hvoru landinu skyldi vera betra að búa, Bandaríkjunum eða Frakklandi? Um það er deilt eins og eðlilegt er; hverjum þykir sinn fugl fagur. Bandaríkin eru næstríkasta land heims miðað við landsframleiðslu á mann. Lúxemborg er eina landið, þar sem framleiðsla á mann var meiri en í Bandaríkjunum í fyrra, 2004. Frakkland er í sautjánda sæti listans; þar eru tekjur á mann fjórðungi minni en í Bandaríkjunum. Á hinn bóginn þurfa Frakkar að hafa minna fyrir lífinu en Bandaríkjamenn. Frakkar vinna að jafnaði skemmri vinnuviku, ef þeir vinna úti á annað borð, þeir taka sér lengri frí og verja meiri tíma með fjölskyldum sínum og vinum. Frakkar hafa minni tekjur en Bandaríkjamenn, rétt er það, og þannig vilja þeir hafa það. Þeir búa samt við betri lífskjör en Bandaríkjamenn í þeim skilningi, að landsframleiðsla Frakka á hverja vinnustund er sjöttungi meiri en í Bandaríkjunum. Frakkar segja: lífskjör snúast bæði um magn og gæði. Þar að auki er tekjum og eignum jafnar skipt milli þegnanna í Frakklandi en í Bandaríkjunum. Í hvoru landinu er þá betra að búa? Þessu þarf hver og einn að svara fyrir sig, því að svarið fer m.a. eftir því, hversu miklu menn eru fúsir að fórna fyrir frístundir með fjölskyldum sínum og vinum og fyrir þokkalegan jöfnuð milli þegnanna, og það er misjafnt. Samanburður á lífskjörum hér heima og í Danmörku veltur á sömu sjónarmiðum. Við erum svolitlu ríkari en Danir miðað við landsframleiðslu á mann; við skipuðum sjötta sæti heimslistans 2004, Danir sjöunda. En við þurfum að hafa meira fyrir hlutunum en Danir, miklu meira. Framleiðsla á hverja vinnustund – öðru nafni vinnuframleiðni – er röskum fjórðungi meiri í Danmörku en á Íslandi. Framleiðsla á hverja vinnustund 2004 var 42 Bandaríkjadollarar í Danmörku á móti tæplega 33 dollurum hér heima. Ísland skipar nítjánda sæti listans yfir ríkustu lönd heims á þennan kvarða, Danmörk tíunda sætið, Bandaríkin sjöunda og Frakkland þriðja. Norðmenn verma fyrsta sætið á listanum; framleiðsla á hverja vinnustund í Noregi er 57 dollarar á móti 51 í Frakklandi og 44 í Bandaríkjunum. Þessi kjarasamanburður tekur mið af því, að verðlag er mishátt eftir löndum, m.a. af því að búskaparlagið er mishagkvæmt. Allar þær þjóðir, sem okkur er tamast að bera okkur við, eru fyrir ofan Ísland á listanum. Og hvað með það? Sumir gleðjast yfir mikilli vinnu og meta kjör sín eftir afrakstri vinnunnar án tillits til erfiðisins, sem að baki býr. Það er skiljanlegt sjónarmið, ef menn líta á vinnu sem takmark í sjálfri sér. Aðrir efast um ágæti mikils vinnuálags, því að það getur bitnað á ýmsu öðru, sem mönnum er mikils virði, svo sem barnauppeldi og farsælu fjölskyldu- og félagslífi. En eitt er víst: langflestir myndu taka því fegins hendi að fá að vinna minna og halda samt óskertu kaupi. Af því má ráða, að framleiðsla á hverja vinnustund – framleiðni! – er betri lífskjarakvarði en framleiðsla á mann. Hér er vandinn sá, að áreiðanleg og sambærileg gögn um vinnuframleiðni eru vandfundin, þar eð mat á fjölda vinnustunda í ólíkum löndum er háð ýmislegri óvissu. Það er á hinn bóginn hægðarleikur að hafa tölu á mannfjöldanum. Þess vegna styðjast menn jafnan heldur við tölur um framleiðslu á mann frekar en framleiðslu á vinnustund – eins og maðurinn, sem leitaði að lyklinum undir ljósastaurnum, þótt hann hefði týnt honum annars staðar. Tölurnar um vinnuframleiðni að framan eru sóttar til Groningenháskóla í Hollandi og munu trúlega með tímanum ryðja sér braut inn í alþjóðaskýrslur um efnahagsmál. Það er m.ö.o. ekki framleiðsla lands og þjóðar, sem mestu ræður um lífskjörin, þegar öllu er á botninn hvolft, heldur vinnuframleiðnin. Þetta er ein skuggahliðin á velgengni Íslands undangengin ár og vitnar enn sem jafnan fyrr um margvíslega óhagkvæmni, sem heldur áfram að hamla íslenzku efnahagslífi, þótt margt hafi að sönnu breytzt til batnaðar undangengin ár. Við höfum miklar tekjur og þurfum að hafa mikið fyrir þeim, ekki aðeins með þrotlausri vinnu, heldur einnig t.d. með því að safna skuldum. Ofveiði til sjós, uppblástur landsins og ýmis önnur vanhirða eru angi á sama meiði. Við getum gert betur. Við þurfum að búa svo um hnútana, að okkur sé kleift að lifa góðu og gjöfulu lífi í landinu án þrúgandi fyrirhafnar og án þess að ganga á eignir okkar og innstæður.
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson Skoðun
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson Skoðun